Bumbublog

   13.2.06  
Hvað er með Egil?

Hvað er eiginlega að gerast með Egil Helgason, hinn ágæta sjónvarpsmann? Sú var tíðin að manni þótti hann vera einn skeleggasti stjórnmálarýnandi/þáttastjórnandi í íslenskum fjölmiðlum, víðsýnn, gagnrýninn en þó opinn fyrir skoðunum viðmælenda sinna. Í seinni tíð hefur þó heldur hallað undan fæti fyrir kauða, og steininn hefur tekið úr frá því myndbirtingar Jyllandsposten á myndum af Múhameð spámanni komust í hámæli. Egill virðist hafa bitið í sig að það sé tjáningarfrelsinu hið mesta þarfaþing að þröngsýn málpípa afturhaldssinna í Danmörku fái að hrauna yfir þá helgu reglu múslima að birta ekki myndir af spámanni sínum, hvað þá með skopmyndum sem endurspegla um leið fordóma myndhöfundanna og væntanlega ritstjórnar blaðsins gagnvart múslimum. Þótt viðbrögð margra heittrúarmanna í múslimaríkjum séu vitaskuld út í hött breytir það engu um það að þessar myndir eru særandi fyrir þau hundruð milljóna (0,9 - 1,4 milljarðar manna skv. Wikipedia) sem játa islamstrú. Við áttum ágæta vini þessarar trúar þegar við bjuggum í Coventry og nóg átti það fólk undir högg að sækja vegna fordóma í kjölfar 11. september þótt ekki bætist við fyrirlitning miðaldra blaðamanna á Íslandi og annarra sjónumhryggra riddara málfrelsis á því sem þeim er heilagt.
   posted by Jón at 2/13/2006 09:55:00 PM

|


   5.2.06  
Til hamingju 2006!

Jei! Eitt blogg á ári veldur skapinu fári, svo nú er kominn tími á upprisu bumbubloggs, þótt bumban sjálf láti reyndar hægt og sígandi á sjá sakir skíðavélarbrúks í dómkirkju líkamsdýrkunar á Íslandi, Laugum. Sá reyndar dr.Gunna þar í sturtunni um daginn og drengurinn er bara alveg að hverfa! Alls kyns stórmenni er auðvitað þarna á vappi, Kári Stefáns sprangar um bísperrtur eins og jólasveinn á sterum og Mikki Torfa lyftir stíft í hádeginu, enda myndi maður sennilega gera svipað ef gervöll þjóðin vildi helst taka í lurginn á manni.

Það er allt að gerast í músíkinni. Laibach mætir á Nasa með sitt fasiska drungadiskó í mars og sama gerir undirritaður og frú hans. Svo er spurningin hvort maður á frekar að skella sér á Ray Davies eða Iggy and the Stooges í vor, hvílíkt lúxuspróblem! Liðin er sú tíð þegar einu erlendu númerin sem létu svo lítið að heiðra landsmenn með hljóðfæraslætti og söng voru Stars on 45 og Bonnie Tyler. Sonic Youth voru btw algerlega brilljant og mín helsta eftirsjá er að hafa ekki drattast á seinna giggið líka.

Svo verða allir að leggja árar í bát, eins og útvarpsmaðurinn sagði, og koma Sylvíu Nótt til Aþenu. Lagið ber af hinu hörmungarjóðlinu í þessari keppni og með því að senda Sylvíu og káta (gay) kappa hennar til að gera góðan skandal í aðalkeppninni gætum við loksins komið landinu á kortið sem flippurum í góðum gír.

Að lokum, hér er fínn vettvangur ef maður skyldi vilja breyta um starfsvettvang en halda áfram í greiningarbransanum. Fagið er greinilega (hoho) vaxandi og teygir anga sína æ víðar.
   posted by Jón at 2/05/2006 11:27:00 AM

|


   18.5.05  
Sonic "youth"

Nú er gaman! Allar gömlu hetjurnar manns í rokkinu, sem kallinn var orðinn úrkula vonar um að sjá í eigin persónu, flykkjast nú á Klakann og spila á ólíklegustu stöðum. Í fyrra voru það Pixies í Kaplakrika, í ágúst verða svo meistarar gítarmisþyrminga og unaðslegra óhljóða, Sonic Youth (sem eru reyndar komin vel á fimmtugsaldur, þrátt fyrir nafnið), sem troða upp í Nasa, af öllum stöðum. Hvað er næst? Fokking Bítlarnir á Gauknum? Allt um það, fyrr skal ég örendur liggja en láta Sonic-tónleikana fram hjá mér fara. Það getur vel verið að maður eigi eftir að skrýðast jakkafötum það sem eftir er starfsævinnar, en ekki ætla ég að snúa baki við rokkinu fyrir það. Nú er bara spurningin: Þar sem ég geri ráð fyrir að mín ektafrú hafi frekar takmarkaðan áhuga á því að sitja undir feedbacki og skurki Thurston Moore og kó, hver er maður (eða kona) til að verða samskipa kallinum á Sonic?
   posted by Jón at 5/18/2005 01:11:00 PM

|


   14.5.05  
School's out for summer.

Nú er kátt í höllinni! Ástæðan: Ég er (vonandi) búinn að fara í mitt síðasta próf um alla framtíð. Þessum tímamótum náði ég á þriðjudaginn var, eftir stutta en snarpa törn þar sem þrjú próf voru lögð að velli á tveimur dögum. Eins og við var að búast lasnaðist ég í því að ég kláraði síðasta prófið, en það er nú bara standard procedure og ekkert sem ætti að koma mér á óvart. Það er eins og maður setji alla sýklana og draslið á hold og svo komi þetta lið tvíelft um leið og líkaminn gefur grænt á að álagið sé aðeins farið að minnka.

Pabbi er að koma með vinkonu sinni í heimsókn eftir hálfan mánuð eða svo, og í tilefni af því bókaði ég gistiheimili fyrir allt liðið við Lake Windermere, svo fólkið sjái nú eitthvað annað af Stóra-Bretlandi en flatneskjuna í Coventry og nágrenni. Þarna upp frá ku vera ansi fallegt, og hægt að þramma fram og aftur um nágrennið sér til heilsubótar. Sú þriggja daga ferð verður sirkabát allt sumarfríið sem ég fæ þetta árið, því eins og ýmsir vita flytjum við heim til Íslands í júlílok og kallinn heldur þá þegar á vit nýs starfs. Húrra fyrir því.
   posted by Jón at 5/14/2005 11:04:00 AM

|


   30.4.05  
Áfram Bretland, ekki bakka!

Hér í Bretlandi er kosningabaráttan komin á flugstig, enda kjördagur næsta fimmtudag. Geysilega gaman hefur verið að fylgjast með slagnum, enda margt með öðrum brag en á Íslandi. T.d. fá stjórnmálaleiðtogarnir hér ekki að vera pakkaðir inn í bómull og naggast í mesta lagi hver í öðrum, eins og lenska er heima, heldur þurfa þeir stöðugt að taka slaginn við grjótharða fréttamenn og jafnvel sótsvartan almúgann í návígi. Þannig var til að mynda þáttur í fyrradag á BBC1 þar sem Michael Howard, Tony Blair og Charles Kennedy þurftu (hver í sínu lagi) að setjast fyrir framan fullan sal af misfjandsamlegum kjósendum og standa fyrir máli sínu. Tony Blair var þarna m.a. kallaður lygari og heigull, og Michael Howard rasisti. Þetta kerfi þarf endilega að taka upp í aðdraganda kosninga á Íslandi, og leggja niður niðursoðin drottningarviðtöl þar sem hverju orði ráðamanna og annarra stjórnmálaleiðtoga er tekið sem fagnaðarerindinu af gagnrýnislausum fjölmiðlafígúrum.

Eitt er þó nauðalíkt hér og heima á klaka, og það eru slagorð stjórnmálaflokkanna í kosningabaráttunni. Þá sem fannst slagorð Sjálfstæðismanna í síðustu kosningabaráttu "Áfram Ísland" heldur banalt (með réttu, verð ég að segja) get ég t.d. frætt á því að Labour notar nú nánast sama slagorð, nema þeir hafa heldur bætt um betur. Slagorð Blair og kó er þannig "Britain forward, not back" svo ekki fari nú á milli mála hvaða stefnu er átt við. Ég held að við náum þessu hjá þér, Tony.

Ekki er betra uppi á teningnum hjá Tories, en þeirra slagorð er "Are you thinking what we are thinking?" Creepy or what, segi ég nú bara. Hvað ef maður er nú ekki að hugsa það sama og Michael Howard? Á maður þá ekki að kjósa Íhaldsflokkinn, eða eru hreinlega einhvers konar viðurlög við slíku óeðli? Það hefur reyndar verið gert slíkt stólpagrín að þessum frasa að Howard og félagar nota hann minna og minna eftir því sem á líður baráttuna.

Lib Dems koma eiginlega skárst út úr þessum samanburði, með frasann "the real opposition". Þeir geta a.m.k. bent á andstöðu sína við Íraksstríðið sem þeir voru á móti allir sem einn. Að öðru leyti ber nú ekki mikið í milli þessarra flokka hvað stefnu varðar, þeir eru allir að hnjóðast hver um annan þveran á miðjunni (ekki ósvipað og Ísland, eiginlega) og því verður fókusinn kannski meiri á menn og innantóm slagorð en málefni.
   posted by Jón at 4/30/2005 11:21:00 AM

|


   24.4.05  
Á ferli um Bretland

Í páskafríi strákanna (sem var n.b. allt eftir páskana) lét fjölskyldan í nr. 14 loksins verða af því að leggja land undir fót og skoða aðrar sveitir Stóra-Bretlands. Var ferðinni heitið til Wales, þar sem gist skyldi tvær nætur í kastala við ofanverðan Swansea-dal, og síðan niður til Somerset til að gista í bænum Cheddar aðrar tvær nætur.

Reyndar sannaðist í þessari för að fall er fararheill, því ca. hálftíma eftir að lagt var af stað stóð spýjan út úr Jóa syni mínum, en hann hafði orðið bílveikur vegna bókalestrar. Drengurinn náði ótrúlega mikilli þekju úr gusunni og lyktin hafði ekki góð áhrif á heilsuna hjá restinni af föruneytinu, svo nú voru góð ráð dýr: Ekki dugði annað en smúla Jóa og aftursætið eins og það lagði sig en hins vegar var ekki svo mikið sem eldhúsrúlla með í för. Því var steðjað á næstu vegasjoppu og fjárfest í hreinsigræjum fyrir tugi punda (ok. 14 pund) til að verka gubbið af Jóa, bílstólnum, aftursætinu og bílgólfinu. Eftir stífa hálftíma törn var bíllinn aftur orðinn íveruhæfur, þótt enn sæti eftir ísmeygilegur ælukeimur.

Haldið var af stað á nýjan leik og komst ég fljótlega að því að ferðaplan mitt, að nota svokallaða tveggja stafa A-vegi (í þessu tilfelli A-46 og A-40) var heldur loppið. Gallinn við þessa vegi er að þeir hafa umferðaþunga hraðbrauta en ekki þann forgang í kerfinu sem M-vegirnir (hinar eiginlegu hraðbrautir) hafa. Því er maður sífellt að keyra um hringtorg og hvert einasta þeirra býður upp á fjölbreytilega möguleika til þess að álpast af leið. Í versta tilfellinu þurftum við að keyra gegn um hina ömurlegu Cheltenham, sem ég ráðlegg lesendum eindregið að forðast á ferðum sínum um England. Maður hélt sig vera að keyra eftir þjóðvegi en fyrr en varði var maður að stautast í miðborgarumferð einhvers nápleiss og engin vegaskilti sjáanleg neins staðar.

Merkilegt nokk lagaðist vegakerfið mikið eftir að til Wales var komið, og er mér sagt að Wales-verjar hafi notið góðs af byggðarstefnu með svipuðum hætti og hinir jarðgangaríku aust- og norðlendingar á Íslandi. Við náðum loks til kastalans í muggu mikilli um kvöldmatarleytið, og dvöldum þar í góðu yfirlæti næstu tvo daga. Kastali þessi heitir Craig y Nos og mæli ég heils hugar með honum fyrir þá sem vilja kíkja vestur til Wales og hafa yfir bíl að ráða. Í næsta nágrenni við kastalann eru heilmiklir hellar, sem við skoðuðum, og lendur hans eru nú útivistarsvæði með stígum og tilheyrandi.

Minnugur fyrri mistaka ákvað ég, að höfðu samráði við frúna, að notast við hraðbrautirnar til þess að koma okkur niður til Somerset. Gekk það ferðalag snurðulaust og tók ótrúlega stuttan tíma, þótt við stoppuðum á leiðinni til þess að skoða annan kastala, Castell Koch. Í Cheddar áttum við pantað herbergi á gistiheimilinu Bay Rose House. Gistiheimili þetta er tær snilld fyrir barnafjölskyldur, því krakkarnir leika sér við börn húsráðenda og fá að gramsa í dótinu þeirra að vild. Á einum tímapúnkti var m.a.s. allt liðið komið inn í íbúð vertanna að horfa á Shrek 2. Einnig fékk stóri strákurinn nokkuð fyrir sinn snúð, því mér var boðið að taka snúning á Scalextric-braut Martins, eiganda Bay Rose, og náði ég geysigóðum árangri í akstrinum eins og sjá má hér. Reyndar þarf að smella á linkinn fyrir "full table" þar sem einhverjir grautfúlir Ástralar hafa bolað mér niður af topp tíu, en samt ekki slæmt fyrir mann sem hefur ekki tekið á því á bílabrautinni í 25 ár eða svo. Kannski maður kaupi svona Scalextric-braut þegar heim er komið (fyrir strákana auðvitað).
   posted by Jón at 4/24/2005 12:10:00 PM

|


   21.4.05  
Snemma beygist krókurinn upp

Valla syni mínum kippir heldur betur í kynið. Dæmi um það er mikill áhugi hans á Marie Claire-blaði sem Stína keypti um daginn. Í blaði þessu er nefnilega opna þar sem gefur að líta ein 10 fönguleg fljóð í fæðingar- gallanum sem snúa berum botninum í lesandann. Myndin fylgir grein þar sem téðar konur tala um kost og löst á afturenda sínum. Jói hefur ekki sýnt þessari mynd nokkurn minnsta áhuga, en öðru máli gegnir um Valla. Löngum stundum situr hann og veltir vöngum yfir myndinni góðu, og þegar ég fór inn í herbergi þeirra bræðra í gærkvöldi til að laga sveininn til fyrir nóttina lá hann steinsofandi ofan á sænginni með rassamyndina í fanginu. Við vitum eiginlega ekki alveg hvernig við eigum að bregðast við þessum mikla gumpáhuga drengsins. Ekki dugar að taka af honum blaðið og pukrast með það; það myndi bara auka áhugann um allan helming. Ég man að minnsta kosti eftir miklum áhuga mínum og bernskuvini mínum á Se og Hör blöðum sem til voru á heimili hans og skörtuðu beru kvenfólki, þótt við værum ekki nema ca. 6-7 ára þegar við vorum að frýnast í þau. Ætli sé ekki bara best úr því sem komið er að leyfa drengnum að skoða myndina góðu þar til hann fær nóg, eða hafa lesendur betri hugmynd?
   posted by Jón at 4/21/2005 11:10:00 AM

|


   18.4.05  
Radiohead rules, ok!

Í gær var þáttur á Channel 4 þar sem kynnt voru úrslit vals áhorfenda stöðvarinnar á bestu plötu/geisladiski allra tíma. Þar sem ég var önnum kafinn við upplestur á Bob the Builder fyrir unga hlustendur byrjaði ég fyrst að horfa á prógrammið þegar komið var að tíu efstu sætunum. Ég missti alla trú á smekk Bretans þegar ein ofmetnasta hljómsveit heims, Oasis, var sett skör ofar en snillingarnir í Beatles, en heldur lyftist brúnin á ný þegar fyrsta sætið var tilkynnt. Það voru sumsé engir aðrir en Oxfordshire-búarnir Radiohead sem hrepptu það hnoss með einu meistaraverka sinna; OK Computer. Nú er að sönnu erfitt að gera upp á milli snilldarinnar sem Thom og félagar hafa sent frá sér gegn um tíðina, en til þess að einfalda valið höfðu Channel4 menn pikkað út eina plötu með hverju bandi, nema hvað stórmenni eins og Bítlarnir fengu að leggja til þrjár plötur, og goddamn Oasis fengu reyndar að leggja til tvær. Listinn yfir tíu bestu plöturnar að mati Channel4 áhorfenda er annars svona:


1. RADIOHEAD - OK Computer
2. U2 - The Joshua Tree
3. NIRVANA - Nevermind
4. MICHAEL JACKSON - Thriller
5. PINK FLOYD - Dark Side of the Moon
6. OASIS - Definitely Maybe
7. THE BEATLES - Sgt Pepper's Lonely Hearts Club Band
8. MADONNA - Like a Prayer
9. GUNS N' ROSES - Appetite For Destruction
10.THE BEATLES - Revolver

Þess má geta að þriðja Bítlaplatan, White Album, var í 12. sæti. Ýmsir frægðarmenn voru svo fengnir til að gefa komment á plöturnar og kom Slash úr Guns'n'Roses skemmtilega á óvart með yfirlýstu dálæti sínu á Radiohead an hann sagðist vera algert "Radiohead-head" og glotti við tönn.

Hætt er við að Thom Yorke hafi misst af prógramminu, en hann var núna um helgina að mótmæla slæmum aðbúnaði verkafólks í þriðja heiminum eins og sá vinur litla mannsins sem hann er. Tóku mótmælin alla laugardagsnóttina og hér má sjá stórmennið mála kröfuspjald sem notað var við þetta tækifæri og mússisera á gítarinn sinn að hætti verkalýðssinnaðra músíkanta allra tíma.
   posted by Jón at 4/18/2005 04:40:00 PM

|


   16.4.05  
Úr vetrardvala

Nú er vor í lofti hér í Warwickshire og mál að vekja bloggið úr vetrarhíði sínu. Veturinn hefur verið nokkuð ljúfur þótt menn hafi skipst á að leggjast í bælið með hinar aðskiljanlegustu pestir eins og gengur. Ég fór annars í skreppiferð til Íslands í vikunni er leið og tók þá hringinn á vini og vandamenn. Allir virðast vera í nokkuð góðum gír, sumir hamast við að fjölga mannkyninu, aðrir fjárfesta í hinum sturlaða fasteignamarkaði og enn aðrir hafa lagt einn tug ára til viðbótar að baki meðan á dvöl okkar hér í Bretlandi hefur staðið. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég var ekki viss um að rata í höfuðstaðinn þar sem ég sat undir stýri Opel-bifreiðar pabba, því heilmiklar breytingar hafa orðið á Keflavíkurveginum og ökuleiðinni gegn um Hafnarfjörð síðan í haust, þökk sé Sturlu. Þó gekk rófan á endanum og var það að þakka geysimikilli reynslu minni af akstri í hringtorgum síðasta hálfa árið. Bretar halda mikið upp á þess konar mannvirki og getur hvarvetna að líta hringtorg af öllum stærðum og gerðum, allt frá litlum máluðum hringjum á gatnamótum upp í hálfgerða hringvegi sem töluverðan tíma tekur að ferðast um. Reyndar má kannski segja að hraðbrautin M25, the Orbital, sem hringar sig um London sé stærsta hringtorg í heimi, og London þá um leið stærsta umferðareyjan.

Það er annars skuggalegt hvað tíminn þýtur út í eterinn hér í Bretlandi; ég er svei mér þá ekki frá því að hann líði hraðar en á Íslandi. Hef ég þá kenningu að ástæðan sé að Coventry liggur "utar" á jarðarkringlunni en Reykjavík gagnvart snúningsmöndul hennar og því er maður náttúrlega á töluvert meiri ferð hér en heima á Klaka. Samkvæmt þessari teóríu er stórvarasamt að flytja til Equador, því þar yrði maður gamalmenni áður en maður vissi af.

Íslenskir pólitíkusar mættu taka Gordon Brown til fyrirmyndar. Þegar fjármálaráðherra Bretlands ferðast innanlands notast hann yfirleitt við lestarkerfið frekar en láta spreða í rándýra þyrlu eða límosínu. Reyndar ferðast Gordon á fyrsta farrými en þó fær hann prik fyrir að ganga á undan með góðu fordæmi hvað varðar notkun á almenningssamgöngum. Maður sæi alla vega ekki alveg fyrir sér að Davíð, Halldór og þeir hinir færu út á BSÍ og tækju Vestfjarðaleið næst þegar þeir eiga erindi á Ísafjörð. Það er reyndar gert töluvert grín að Brown fyrir sparsemi hér í Bretlandi, og til að mynda sýnir teiknimyndaspaugstofan 2DTV hann aldrei öðruvísi en sem fúllynda aurasál sem rukkar strákinn sinn fyrir hin ýmsu uppeldisverk. Brown er auðvitað Skoti en þó hef ég eftir áreiðanlegum heimildum að drengurinn hans sé ágætlega haldinn og fái að eiga aurana sína í friði. Reyndar er Gordon óþægilega líkur Halldóri Ásgrímssyni í útliti við fyrstu sýn, en ku þó leyna á sér við frekari viðkynningu. Þannig segir í einni þeirra fjölmörgu bóka sem ritaðar hafa verið um kappann: "...but privately, Gordon Brown is a humorous and romantic man". Því miður fyrir kvenkyns lesendur gekk Brown í það heilaga fyrir fáum árum eftir langan og farsælan feril sem piparsveinn og er hann því sýnd veiði en ekki gefin nú um stundir.
   posted by Jón at 4/16/2005 10:27:00 AM

|


   14.12.04  
Byttur í Bretlandi

Ég held ég verði að éta ofaní mig aftur öll skattyrði um veðrið hér í Coventry. Hér er sem sagt búið að vera mikið ágætisveður svo til allan undanfarinn mánuð, og vetur eins og við þekkjum hann á Fróni hvergi sjáanlegur. Ósköp finnst mér nú notalegt að geta farið út úr húsi í desember án þess að vera stöðugt að þurrka sultardropa af nefinu eða strjúka stórhríðina frá gleraugunum. Hér eru menn komnir í nokkurt jólaskap, og reyndar eru Bretar mun fyrri til með jólaskreytingar í heimahúsum en gengur og gerist á Íslandi. Þrátt fyrir það virðist ekki ríkja sama fyrirjólaspennan og á Klakanum, a.m.k. verður maður ekki var við sömu geggjunina og maður á að venjast á aðventunni. Kannski ræður þar einhverju að í bílnum hlustum við aðallega á klassíska stöð og höfum því misst af/sloppið við "Jólahjól" og aðra snilld af líku tagi.

Eitt hefur komið mér verulega á óvart við breskt samfélag, og það er hvað Bretinn drekkur stíft. Maður hafði einhvern veginn bak við eyrað ímyndina af Bretlandi þar sem pöpullinn fengi sér einn öl á kránni eftir vinnu, en yfirstéttin sötraði portvín og viskí í góðum fíling við arininn. Þetta gera menn reyndar almennt, og margir fá sér bæði öl og viskí meira og minna daglega, en þar við bætist að yngra liðið fer á all svakaleg fyllerí um helgar og gefur þar íslenskum jafnöldrum sínum ekkert eftir. Nær daglega eru í fjölmiðlunum fréttir af sukki og svalli, og greinilegt að fólk hefur miklar áhyggjur af þessari geysilegu drykkju. Svo virðist sem þetta sé tiltölulega nýlegt fyrirbæri, og megi kenna hér um mikilli markaðsetningu drykkjarfyrirtækjanna á áfengu gosi, en meðan ecstasy var sem vinsælast á tíunda áratugnum lápu flest þeirra dauðann úr skel. Nú dafna þau hins vegar eins og púkinn á fjósbitanum, og sagt er að stjórn Blair hafi löngum daufheyrst við áhyggjuröddum vegna drykkjuaukningarinnar, enda drykkjarframleiðendurnir dyggir stuðningsmenn Verkamannaflokksins.
   posted by Jón at 12/14/2004 07:04:00 PM

|


   3.12.04  
Kalt smæl í Coventry

Nú er frost í Miðlöndunum ensku. Nánar tiltekið, þá er nú ekki frost ákkúrat núna en í morgun var ískalt og héla yfir öllu. Svolítið norðanáttarlegt veður bara, eins og maður kannast við heiman frá klaka; bjart, fallegt en kalt. Sakir rakans sem hér er í lofti kemur líka sérstaklega illvíg klakabrynja á bílgluggana þegar frýs, og hana varð ég að berja af í morgun til að koma drengjunum í skólann. Ég gerði annars óformlega úrtakskönnun meðal skólafélaga minna og sýnist að ég sé sá eini í mínum kúrsi (af um 65) sem finnst veðrið hér í Coventry vera framför frá heimalandinu.

Í fyrrakvöld var sýndur hér í sjónvarpinu þáttur um Brian Wilson og meistaraverkið Smile, sem karlinn fór með á tónleikaför í sumar eftir að hafa átt það ofan í skúffu í tæp 40 ár. Smile hljóðritaði Wilson á seinni hluta sjöunda áratugarins og átti stykkið að koma út sem næsta Beach Boys plata eftir hina áhrifamiklu Pet Sounds. Hinir Strandstrákarnir voru á tónleikaferð á meðan, en þar kom að Brian þurfti á þeim hað halda til að syngja inn á gripinn. Þessir félagar hans virðast algerlega sneyddir sans fyrir góðri tónlist, því þeim leist ekkert á prójektið og á endanum var öllu saman stungið undir stól, Brian Wilson snappaði og var spítalamatur næstu árin, og restin af bandinu fetaði þann sorglega veg sem sjá mátti dæmi af á Broadway um daginn, með hrappinn Mike Love í broddi fylkingar. Það var annars magnað að fylgjast með kallinum í mynd þessari, þegar farið var að æfa Smile upp á nýjan leik. Hann datt algerlega inn í sjálfan sig, enda væntanlega rifjast upp fyrir honum mörg skelfingarminningin frá Beach Boys tímanum, og endaði með því að þurfa að leggjast inn á sjúkrahús kraminn á sál. Wilson náði þó að hrista af sér slenið og koma öllu saman á koppinn. Ég sá á bloggi Dr. Gunna að hann hafði farið og séð þetta sjó, og dauðöfunda ég kauða af, því það litla sem sýnt var frá tónleikunum í sjónvarpinu benti til þess að um magnaða upplifun hefði verið að ræða.
   posted by Jón at 12/03/2004 04:59:00 PM

|


   27.11.04  
Draumar og martraðir

Hér í Englandi er aftur komið haust eftir smá vetrarskot um daginn, um svipað leyti reyndar og fimbulkuldinn mikli var heima á klaka. Ekki get ég nú kvartað yfir 10 stiga hita dag eftir dag í nóvemberlok, enda lítill vetrarmaður í mér. Ég fékk nýja hjólið, sem pantað var af netinu, um daginn og byrjaði auðvitað á því að fljúga á hausinn og skráma mig svolítið. Maður er náttúrlega ekki lengur 18 ára og ætti að fara aðeins varlegar á hjólhestinum hér eftir.

Sá ansi merkilega þáttaröð um daginn. Hún heitir "The Power of Nightmares" og verður vonandi sýnd í Rúv fyrr eða síðar. Þættir þessir fjalla um bakgrunn tveggja hreyfinga sem nú eru ofarlega á baugi, annars vegar NeoCons í Bandaríkjunum og hins vegar Al Quaeda, sem reyndar virðist ekki vera til í þeirri mynd sem við höldum, ef marka má þættina. Ein niðurstaða þáttanna er að leiðtogar ýmissa vestrænna ríkja hafi gefist upp á að selja almenningi drauma til að hljóta kosningu, og noti nú martraðir í staðinn til þess að hræða atkvæðin út úr fólki. Það setti því að manni hroll þegar drottingin flutti stefnuræðu hér um daginn (þessar ræður drottningarinnar eru í raun stefna ríkisstjórnarinnar) og þar var nær eingöngu talað um hættuna af hryðjuverkum og glæpum, og hvernig auka þyrfti eftirlit og persónunjósnir til að slá á þessa hættu. Stóri bróðir hvað?

Nú er bara ein vika eftir af kúrsum haustannar, ótrúlegt en satt. Eftir það tekur við strembin upplestrarhrina. Framundan eru þrjú próf í janúar sem öll raðast á tvo daga, eitt fyrri daginn og tvö þann seinni. Eitthvað hefðu menn nú sagt með svoleiðis próftöflu í HÍ. Hætt er því við að áramótagleðinni verði því í hóf stillt, svo maður hrökklist nú ekki úr námi með skít og skömm.
   posted by Jón at 11/27/2004 10:40:00 AM

|


   15.11.04  
Pestarbæli

Þessa dagana er fjölskyldan í Lakeside öll í sóttkví, því enn á ný hefur glæný veira náð að leggja allan mannskapinn. Pestinni var svo merkilega skipt milli sonanna að annar (Jói) fékk gubbupartinn en hinn (Valli) hitann. Sannarlega bróðurleg skipti.

Ég bíð spenntur eftir að fá nýja hjólhestinn minn afhentan. Ég fór sumsé á Netið og pantaði fák af Dawes-gerð. Fékk ég síðan skondinn póst frá söluaðilanum, þar sem stóð að þeir myndu koma akandi með hjólið "in our vehicle", sem er svona álíka orðalag og ef einhver á Íslandi segðist myndu koma varningi til manns í farartæki sínu. Einnig fjárfesti ég í rammgerðum "D-lock" sem er örugglega álíka þungur og hjólið, en það er með álstelli og ætti því að vera fislétt.
   posted by Jón at 11/15/2004 11:50:00 AM

|


   4.11.04  
Oh, God

Ég splæsti í The Guardian (20p, næstum jafn ódýr og Fréttablaðið) í dag, fyrsta tölublaðið sem fer í prentun eftir kosningaúrslitin í US. Forsíðan á fylgiblaðinu G2 var öll kolsvört, nema hvað í miðjunni stóð með litlu letri "Oh, God." Gaman að fjölmiðlum sem þora að hafa skoðanir.
   posted by Jón at 11/04/2004 05:31:00 PM

|


   3.11.04  
Krappdagur

Þessi dagur byrjar svo sannarlega ekki vel. Í USA sannaðist að þegar heimskan og hræðslan leggjast á eitt má skynsemin sín lítils. Svo var hjólinu mínu stolið í nótt. Hjólmissirinn gerir mér nú eiginlega meira gramt í geði en sigur Bush, en skaði heimsbyggðarinnar er trúlega á hinn veginn. Oh, well, það er a.m.k. hægt að fá sódavatn hér fyrir 20p (25kall) og sæmilegt rauðvín fyrir 4 pund (500kall) svo fátt er nú með öllu illt.
   posted by Jón at 11/03/2004 04:53:00 PM

|


   1.11.04  
Sögur af sonum

Eins og önnur foreldri er ég útsettur með að plaga vini og velunnara með sögum af því hvað afkvæmi mín séu skemmtileg, greind og á allan hátt vellukkuð eintök. Minna fer fyrir frásögnum af slagsmálum þeirrra, óþekkt, matvendni og endalausu kvabbi, enda kannski ekki í frásögur færandi.

Í morgun sátu bræðurnir saman í stofusófanum og skoðuðu ensk myndablöð um Tomma Togvagn meðan þeir biðu eftir að mamma þeirra klæddi þá í skólabúningana. Upphófust þá eftirfarandi samræður:
Jói: Valli, lestu fyrir mig.
Valli (áhyggjufullur): En Jói, ég kann ekki að lesa ensku.
Jói (með heimspekilegri ró): Valli, lestu þá bara á íslensku.
Til skýringar skal á það bent að þeir félagar eru fjögurra ára og nýbyrjaðir að læra stafina.

Jói hefur mátulega miklar mætur á Hrekkjavökunni, sem haldið var upp á hér í Coventry um síðustu helgi. Þegar mamma hans hafði lokið við að útskýra fyrir honum að Halloween héti Hrekkjavaka á íslensku, sagði hann: “En mamma, ég vil ekki að Hrekkjavakan hrekki mig.”

Skólafélagi og jafnaldri Jóa og Valla heitir Rashid. Um daginn voru bræðurnir á ferli ásamt mömmu sinni og mættu téðum Rashid á förnum vegi:
Stína: Er þetta ekki skemmtilegur strákur?
Jói (með áherslu): Nei!
Stína: Af hverju ekki?
Jói: Hann potar alltaf í rassinn á sér.
Eins gott að heilsa ekki Rashid með handabandi, segi ég nú bara.
   posted by Jón at 11/01/2004 03:15:00 PM

|


   30.10.04  
Sjónkablogg

Hér í Bretlandi er sjónvarp fjölskrúðugt og spannar allt frá geysimenningarlegum fræðslu- og listaþáttum til argasta sorps. Sérstaklega er hér vinsæl sú tegund þátta sem kalla mætti "makeover" í víðasta skilningi. Gildir þá einu hvort verið er að taka í gegn gamalt hús, fatastíl, fjármál eða skítastuðul viðkomandi. Dæmi um hið síðastnefnda er hinn makalausi þáttur "Too Posh to Wash", en þar er einhver lánlaus drulludeli dreginn upp úr skítnum og tvær fínar frúr með harðsnúið aðstoðarlið sér til fulltingis freista þess að gera kauða húsum hæfan. Síðasti þáttur af þessu úrvalsefni var sérlega lystaukandi, en þar var á ferð náungi sem ekki hafði farið í bað í þrjár vikur, og var sóðaháttum hans lýst í máli og myndum af mikilli nákvæmni. Þessi skítalabbi lét yfir sig ganga vægast sagt niðurlægjandi hreinsunaraðgerðir frúnna, þar til kom að því að klippa átti drenginn; þá stakk hann af.

Annar merkilegur þáttur er “Ban This Filth”, þar sem umfjöllunarefni og efnistök minna mjög á þáttinn Eurotrash, sem ýmsir muna sjálfsagt eftir frá Stöð3 sálugu. Munurinn hér er sá að kynnar og umsjónarmenn BTF eru fjórar ráðsettar ömmur, sem segja frá perraskapnum með miklum viðbjóði og hneykslan. Hvetja þær áhorfendur til að senda sér sem mest af subbuskap og klámi, svo þær geti fylgst sem gerst með því hvers konar siðspilling grasserar í Bretlandi og víðar.

Öllu gæfulegri er þáttaröðin “The Power of Nightmares” sem verið er að sýna á BBC2 þessa dagana. Þeir þættir fjalla um bakgrunn og hugmyndafræði “the war on terror”, bæði hvað varðar ný-íhaldið (e. Neo-cons) sem ræður Hvíta Húsinu þessa dagana, og eins Osama og káta kappa hans. Sérlega er skondið að sjá, með hliðsjón af stuðningi ýmissa íslenskra frjálshyggjumanna við Bush og kó, hversu megna skömm Neo-cons hafa á öllu sem heitir einstaklingshyggja og frjálslyndi, heldur vilja þeir þvert á móti strangar og stífar siðareglur og stjórna með boðum og bönnum út í eitt. Pældu svoldið í því, Ólafur Teitur, næst þegar þú ferð að mæra Bush og skíta út Kerry í fjölmiðlum.
   posted by Jón at 10/30/2004 04:33:00 PM

|


   15.10.04  
Tesco Fresco

Hér í nágrenni Warwick-skólalóðarinnar (Warwick bæjarfélagsins væri nær lagi, enda búa hér fleiri þúsundir manna) er verslunarmiðstöðin Cannon Park sem skartar sem sinni helstu skrautfjöður versluninni Tesco. Sölubúðin sú er nokkuð merkilegt fyrirbæri, einhvers konar Bónus í öðru veldi. Í Tesco er í raun hægt að fá flest það sem nútímamaðurinn þrífst á. Auk matar, heimilistækja, fata og brennivíns (þ.á.m. er Tesco-viskí og Tesco-bjór, sem er geysiþunnur þrettándi) er þar til að mynda hægt að kaupa Tesco-bensín á bílinn, sem er svo að sjálfsögðu tryggður hjá Tesco-tryggingum og fjármagnaður af Tesco-finance. Vilji maður athuga hvort frúna vanti eitthvað úr búðinni er tilvalið að hringja úr Tesco-símanum sínum, sem auðvitað er þjónustaður af Tesco-GSM þjónustunni. Hún getur svo farið á Tesco-vefinn um Tesco-breiðbandið og t.a.m. pantað sér nýjustu myndirnar í Tesco-DVD leigunni, sem sendir manni þrjár myndir á viku í pósti fyrir fast mánaðargjald. Þessi magnaða búð er svo opin allan sólarhringinn frá mánudagsmorgni til föstudagskvölds, ef maður skyldi nauðsynlega þurfa að fá sér svolítinn náttbita, til dæmis Tesco-búðing eða Tesco-súkkulaði, kl. hálffjögur að morgni.
   posted by Jón at 10/15/2004 10:09:00 PM

|


   9.10.04  
Bílablogg

Ekki entist lengi hugsjónin um umhverfisvænu heilsufjölskylduna, sem færi allra ferða sinna fótgangandi, hjólandi eða í strætó. Það sem varð henni að falli var sú staðreynd að skóli drengjanna minna er í lágmark 30 mínútna göngufjarlægð fyrir fullorðna frá Lakeside , og allt frá 40 mínútum upp undir klukkutíma þegar þeir bræður eru með í för. Þannig tekur vel á annan tíma að koma þeim í skólann og skunda til baka á morgnana, og annað eins að sækja liðið síðdegis. Við höfum auðvitað fengið geysifína hreyfingu síðustu vikur en að sama skapi fer mikill tími í þrammið, og þegar eitthvað er að veðri eða skapinu í afkvæmunum verður þessi vegalengd nánast óendanleg.

Eins og sannir Íslendingar höfum við því fest kaup á bifreið. Hana fann ég á Netinu, Ford Escort árgerð 1996. Það var auðvitað ekki annað hægt en að kaupa innlenda framleiðslu, þótt ef til vill hefði ég átt að gera enn betur og fjárfesta í Jagúar, sem er framleiddur nánast í næsta húsi hér í Coventry. Escortinn virðist vera í þokkalegasta standi, a.m.k. lítið keyrður, en er augljóslega e.k. Harlem-týpa. Til að mynda er ekki vökvastýri á bílnum, sem verður til þess að handleggirnir á manni fá fínt wörkát þegar verið er að snúa í stæðum og þess háttar. Þessi fákur kostaði 1.500 pund, sem leggur sig á 200.000 kall, og sýnist mér að verð á notuðum bílum sé almennt nokkuð lægra hér en á Íslandi. Inn í þessari summu var líka 12 mánaða ábyrgð á öllum meiriháttar bilunum, og sæi ég í anda íslensku bílasölurnar bjóða slíkt á 8 ára gömlum skrjóð.

Nú er sumsé hægt að fara með fjölskylduna í helgarbíltúr, þótt enginn sé Þingvallahringurinn hér í Warwickshire. Í staðinn á að kíkja á Kenilworth Castle þar sem viðhald Elísabetar I, Robert Dudley, réð húsum hér í denn.


   posted by Jón at 10/09/2004 10:02:00 AM

|


   30.9.04  
Goose mom

Hér í Warwick-háskóla eru svo sannarlega allra þjóða kvikindi saman komin. Í kúrsinum mínum eru 70 manns, og ku þar vera saman komnir borgarar 37 landa. Bekkurinn er því skrautlegur ásýndum og skemmtilegur áheyrnar. Einn Ítali hefur reyndar nákvæmlega sama talanda og Línan góðkunna, skrækur, óðamála og hás, og gefur stöðugt tóndæmi því hann er málgefinn með afbrigðum. Drengurinn virðist annars vænsti náungi, og þótti mér því miður þegar bekkurinn hló að kauða eftir að hann bar fram vanhugsaða spurningu í stærðfræðitíma. Maður hélt að fólk væri vaxið upp úr slíku þegar komið væri í meistaranám. Ég hef allavega borið fram nógu margar vitlausar spurningar um ævina til að hafa nokkra samúð með Línumanni.

Þau gleðitíðindi gerðust í dag að megnið af föggum okkar, sem við sendum með Eimskipum, kom loks á svæðið eftir miklar tafir sem urðu vegna dularfulls formgalla á tollskýrslu. Urðu þar fagnaðarfundir með mér og hjólinu mínu, enda er háskólasvæðið sem sniðið fyrir hjólreiðar, stígar í allar áttir. Drengirnir mínir eru líka komnir á hjól og í dag fórum við í fyrsta hjólatúrinn okkar saman. Japanskar konur sem við mættum höfðu á orði að ég færi þar sem "team leader", eða liðsforingi, en ég svaraði því til að ég væri í hlutverki "goose mom". við feðgar á ferð minnum enda nokkuð á gæsahópana sem strunsa fram og aftur um velli hér í Lakeside, með gæsamömmu fremsta í flokki og ungana tuðandi og tuldrandi í kjölfarið.
   posted by Jón at 9/30/2004 08:22:00 PM