Bumbublog

   30.9.04  
Goose mom

Hér í Warwick-háskóla eru svo sannarlega allra þjóða kvikindi saman komin. Í kúrsinum mínum eru 70 manns, og ku þar vera saman komnir borgarar 37 landa. Bekkurinn er því skrautlegur ásýndum og skemmtilegur áheyrnar. Einn Ítali hefur reyndar nákvæmlega sama talanda og Línan góðkunna, skrækur, óðamála og hás, og gefur stöðugt tóndæmi því hann er málgefinn með afbrigðum. Drengurinn virðist annars vænsti náungi, og þótti mér því miður þegar bekkurinn hló að kauða eftir að hann bar fram vanhugsaða spurningu í stærðfræðitíma. Maður hélt að fólk væri vaxið upp úr slíku þegar komið væri í meistaranám. Ég hef allavega borið fram nógu margar vitlausar spurningar um ævina til að hafa nokkra samúð með Línumanni.

Þau gleðitíðindi gerðust í dag að megnið af föggum okkar, sem við sendum með Eimskipum, kom loks á svæðið eftir miklar tafir sem urðu vegna dularfulls formgalla á tollskýrslu. Urðu þar fagnaðarfundir með mér og hjólinu mínu, enda er háskólasvæðið sem sniðið fyrir hjólreiðar, stígar í allar áttir. Drengirnir mínir eru líka komnir á hjól og í dag fórum við í fyrsta hjólatúrinn okkar saman. Japanskar konur sem við mættum höfðu á orði að ég færi þar sem "team leader", eða liðsforingi, en ég svaraði því til að ég væri í hlutverki "goose mom". við feðgar á ferð minnum enda nokkuð á gæsahópana sem strunsa fram og aftur um velli hér í Lakeside, með gæsamömmu fremsta í flokki og ungana tuðandi og tuldrandi í kjölfarið.
   posted by Jón at 9/30/2004 08:22:00 PM

|


   29.9.04  
Nýtt land, sama röddin

Tíðnin á bloggun hér á Bumbubloggi er auðvitað komin niður fyrir allar hellur. Reyndar hef ég óvenjugóða ástæðu núna fyrir bloggleysi, því kallinn var að flytja með alla fjölskylduna til Coventry, þar sem ég settist á skólabekk í morgun enn á ný. Nú á að taka Masterinn með stæl. Það eru semsagt búnar að vera ansi klikkaðar vikurnar undanfarið við pökkun og flutninga, og aðeins nokkrir dagar síðan samband við siðmenninguna komst á að nýju (þ.e. netaðgangur). Ég þori þó ekki að lofa neinu um tíð blogg, svo ég svíki ekkert.

Bretland er gósenland fyrir fólk með matarsmekk okkar hjóna. Allt sem okkur finnst best er hér hræódýrt (kjúklingar, brauðmeti, indverskur matur o.s.frv.) en lambakjöt og svoleiðis, sem lítt er etið hér á bæ, hins vegar lúxusvara. Það er voða gaman að taka góða rispu í búðinni, mæta með troðfulla innkaupakerru að kassanum og borga bara pínöts fyrir. Áfengisverð er auðvitað sérkapituli, enda munar budduna lítið um þótt maður kippi með sér einni rauðri í innkaupakerruna. Verst hvað maður er farinn að sturta í sig fyrir vikið, enda er fælingarmáttur hás áfengisverðs á Íslandi alkunn staðreynd, eða þannig.

Ég er nú svo mikill afdalamaður að eitt og annað hér kemur pínu spánskt fyrir sjónir. Til dæmis er ekki fræðilegur möguleiki að verða sér úti um ostahníf, en hjálplegur skólabróðir benti mér á að hægt væri að nota miðjuna á ostaraspinum í staðinn, vilji maður fá ostsneiðar sem eru innan við þverhandarþykkar. Bretar skera ostinn sinn með hnífum, og fá þannig hnausþykka hlunka sem þeir kjamsa á með velþóknun. Einnig þarf að venjast því að handleika seðla og klink að nýju, því Bretinn er ekki kominn alveg jafn langt í kortabrúkun og netgreiðslum og mörlandinn, þótt ástandið hafi víst batnað mikið hér undanfarið.

Fyrir þá sem láta þjónustu nemendaskrár Háskóla Íslands fara í taugarnar á sér get ég upplýst að það ágæta batterí er unaðsreitur skilvirkni og toppþjónustu miðað við stjórnsýslubatteríið hér í Warwick-háskóla, sér í lagi alþjóðaskrifstofuna. Þar hef ég átt margar ógleymanlegar stundir í ýmsum biðröðum, allt til þess að verða mér úti um eitt lítið bréf til staðfestingar á skólavist minni svo ég geti opnað bankareikning hér. Hef ég nú fjórum sinnum lagt inn umsókn um nefnt bréf. Fyrstu umsókninni týndu þeir. Umsókn númer tvö var afgreidd með bréfi sem bankinn neitaði að taka gilt. Við það fyrtist ég og ákvað að skipta við annan banka. Lagði ég þá inn umsókn númer þrjú þar sem nafni bankans hafði verið breytt. Eftir dúk og disk fékk ég síðan bréf í lokuðu umslagi sem ég, í einfeldni minni og órökstuddri trú á gáfum og innræti skrifstofumanna, fór með óopnað í bankann. Þar kom í ljós að bréfið var stílað á hinn fyrri banka, og fór ég því í fjórða sinn upp á alþjóðaskrifstofuna með umsókn, sem ég bíð nú eftir að verði afgreidd. Til frekari skreytingar má bæta því við að alþjóðaskrifstofan er langar leiðir frá bæði bankanum og íbúðinni minni, og tveggja daga bið er jafnan eftir afgreiðslu á þessum fjárans bréfum. Fer ég nú að sjá öll tormerki á að ég geti opnað bankareikning í Bretaveldi áður en ég sný aftur heim.
   posted by Jón at 9/29/2004 02:24:00 PM