Bumbublog

   30.10.04  
Sjónkablogg

Hér í Bretlandi er sjónvarp fjölskrúðugt og spannar allt frá geysimenningarlegum fræðslu- og listaþáttum til argasta sorps. Sérstaklega er hér vinsæl sú tegund þátta sem kalla mætti "makeover" í víðasta skilningi. Gildir þá einu hvort verið er að taka í gegn gamalt hús, fatastíl, fjármál eða skítastuðul viðkomandi. Dæmi um hið síðastnefnda er hinn makalausi þáttur "Too Posh to Wash", en þar er einhver lánlaus drulludeli dreginn upp úr skítnum og tvær fínar frúr með harðsnúið aðstoðarlið sér til fulltingis freista þess að gera kauða húsum hæfan. Síðasti þáttur af þessu úrvalsefni var sérlega lystaukandi, en þar var á ferð náungi sem ekki hafði farið í bað í þrjár vikur, og var sóðaháttum hans lýst í máli og myndum af mikilli nákvæmni. Þessi skítalabbi lét yfir sig ganga vægast sagt niðurlægjandi hreinsunaraðgerðir frúnna, þar til kom að því að klippa átti drenginn; þá stakk hann af.

Annar merkilegur þáttur er “Ban This Filth”, þar sem umfjöllunarefni og efnistök minna mjög á þáttinn Eurotrash, sem ýmsir muna sjálfsagt eftir frá Stöð3 sálugu. Munurinn hér er sá að kynnar og umsjónarmenn BTF eru fjórar ráðsettar ömmur, sem segja frá perraskapnum með miklum viðbjóði og hneykslan. Hvetja þær áhorfendur til að senda sér sem mest af subbuskap og klámi, svo þær geti fylgst sem gerst með því hvers konar siðspilling grasserar í Bretlandi og víðar.

Öllu gæfulegri er þáttaröðin “The Power of Nightmares” sem verið er að sýna á BBC2 þessa dagana. Þeir þættir fjalla um bakgrunn og hugmyndafræði “the war on terror”, bæði hvað varðar ný-íhaldið (e. Neo-cons) sem ræður Hvíta Húsinu þessa dagana, og eins Osama og káta kappa hans. Sérlega er skondið að sjá, með hliðsjón af stuðningi ýmissa íslenskra frjálshyggjumanna við Bush og kó, hversu megna skömm Neo-cons hafa á öllu sem heitir einstaklingshyggja og frjálslyndi, heldur vilja þeir þvert á móti strangar og stífar siðareglur og stjórna með boðum og bönnum út í eitt. Pældu svoldið í því, Ólafur Teitur, næst þegar þú ferð að mæra Bush og skíta út Kerry í fjölmiðlum.
   posted by Jón at 10/30/2004 04:33:00 PM

|


   15.10.04  
Tesco Fresco

Hér í nágrenni Warwick-skólalóðarinnar (Warwick bæjarfélagsins væri nær lagi, enda búa hér fleiri þúsundir manna) er verslunarmiðstöðin Cannon Park sem skartar sem sinni helstu skrautfjöður versluninni Tesco. Sölubúðin sú er nokkuð merkilegt fyrirbæri, einhvers konar Bónus í öðru veldi. Í Tesco er í raun hægt að fá flest það sem nútímamaðurinn þrífst á. Auk matar, heimilistækja, fata og brennivíns (þ.á.m. er Tesco-viskí og Tesco-bjór, sem er geysiþunnur þrettándi) er þar til að mynda hægt að kaupa Tesco-bensín á bílinn, sem er svo að sjálfsögðu tryggður hjá Tesco-tryggingum og fjármagnaður af Tesco-finance. Vilji maður athuga hvort frúna vanti eitthvað úr búðinni er tilvalið að hringja úr Tesco-símanum sínum, sem auðvitað er þjónustaður af Tesco-GSM þjónustunni. Hún getur svo farið á Tesco-vefinn um Tesco-breiðbandið og t.a.m. pantað sér nýjustu myndirnar í Tesco-DVD leigunni, sem sendir manni þrjár myndir á viku í pósti fyrir fast mánaðargjald. Þessi magnaða búð er svo opin allan sólarhringinn frá mánudagsmorgni til föstudagskvölds, ef maður skyldi nauðsynlega þurfa að fá sér svolítinn náttbita, til dæmis Tesco-búðing eða Tesco-súkkulaði, kl. hálffjögur að morgni.
   posted by Jón at 10/15/2004 10:09:00 PM

|


   9.10.04  
Bílablogg

Ekki entist lengi hugsjónin um umhverfisvænu heilsufjölskylduna, sem færi allra ferða sinna fótgangandi, hjólandi eða í strætó. Það sem varð henni að falli var sú staðreynd að skóli drengjanna minna er í lágmark 30 mínútna göngufjarlægð fyrir fullorðna frá Lakeside , og allt frá 40 mínútum upp undir klukkutíma þegar þeir bræður eru með í för. Þannig tekur vel á annan tíma að koma þeim í skólann og skunda til baka á morgnana, og annað eins að sækja liðið síðdegis. Við höfum auðvitað fengið geysifína hreyfingu síðustu vikur en að sama skapi fer mikill tími í þrammið, og þegar eitthvað er að veðri eða skapinu í afkvæmunum verður þessi vegalengd nánast óendanleg.

Eins og sannir Íslendingar höfum við því fest kaup á bifreið. Hana fann ég á Netinu, Ford Escort árgerð 1996. Það var auðvitað ekki annað hægt en að kaupa innlenda framleiðslu, þótt ef til vill hefði ég átt að gera enn betur og fjárfesta í Jagúar, sem er framleiddur nánast í næsta húsi hér í Coventry. Escortinn virðist vera í þokkalegasta standi, a.m.k. lítið keyrður, en er augljóslega e.k. Harlem-týpa. Til að mynda er ekki vökvastýri á bílnum, sem verður til þess að handleggirnir á manni fá fínt wörkát þegar verið er að snúa í stæðum og þess háttar. Þessi fákur kostaði 1.500 pund, sem leggur sig á 200.000 kall, og sýnist mér að verð á notuðum bílum sé almennt nokkuð lægra hér en á Íslandi. Inn í þessari summu var líka 12 mánaða ábyrgð á öllum meiriháttar bilunum, og sæi ég í anda íslensku bílasölurnar bjóða slíkt á 8 ára gömlum skrjóð.

Nú er sumsé hægt að fara með fjölskylduna í helgarbíltúr, þótt enginn sé Þingvallahringurinn hér í Warwickshire. Í staðinn á að kíkja á Kenilworth Castle þar sem viðhald Elísabetar I, Robert Dudley, réð húsum hér í denn.


   posted by Jón at 10/09/2004 10:02:00 AM