Bumbublog

   27.11.04  
Draumar og martraðir

Hér í Englandi er aftur komið haust eftir smá vetrarskot um daginn, um svipað leyti reyndar og fimbulkuldinn mikli var heima á klaka. Ekki get ég nú kvartað yfir 10 stiga hita dag eftir dag í nóvemberlok, enda lítill vetrarmaður í mér. Ég fékk nýja hjólið, sem pantað var af netinu, um daginn og byrjaði auðvitað á því að fljúga á hausinn og skráma mig svolítið. Maður er náttúrlega ekki lengur 18 ára og ætti að fara aðeins varlegar á hjólhestinum hér eftir.

Sá ansi merkilega þáttaröð um daginn. Hún heitir "The Power of Nightmares" og verður vonandi sýnd í Rúv fyrr eða síðar. Þættir þessir fjalla um bakgrunn tveggja hreyfinga sem nú eru ofarlega á baugi, annars vegar NeoCons í Bandaríkjunum og hins vegar Al Quaeda, sem reyndar virðist ekki vera til í þeirri mynd sem við höldum, ef marka má þættina. Ein niðurstaða þáttanna er að leiðtogar ýmissa vestrænna ríkja hafi gefist upp á að selja almenningi drauma til að hljóta kosningu, og noti nú martraðir í staðinn til þess að hræða atkvæðin út úr fólki. Það setti því að manni hroll þegar drottingin flutti stefnuræðu hér um daginn (þessar ræður drottningarinnar eru í raun stefna ríkisstjórnarinnar) og þar var nær eingöngu talað um hættuna af hryðjuverkum og glæpum, og hvernig auka þyrfti eftirlit og persónunjósnir til að slá á þessa hættu. Stóri bróðir hvað?

Nú er bara ein vika eftir af kúrsum haustannar, ótrúlegt en satt. Eftir það tekur við strembin upplestrarhrina. Framundan eru þrjú próf í janúar sem öll raðast á tvo daga, eitt fyrri daginn og tvö þann seinni. Eitthvað hefðu menn nú sagt með svoleiðis próftöflu í HÍ. Hætt er því við að áramótagleðinni verði því í hóf stillt, svo maður hrökklist nú ekki úr námi með skít og skömm.
   posted by Jón at 11/27/2004 10:40:00 AM

|


   15.11.04  
Pestarbæli

Þessa dagana er fjölskyldan í Lakeside öll í sóttkví, því enn á ný hefur glæný veira náð að leggja allan mannskapinn. Pestinni var svo merkilega skipt milli sonanna að annar (Jói) fékk gubbupartinn en hinn (Valli) hitann. Sannarlega bróðurleg skipti.

Ég bíð spenntur eftir að fá nýja hjólhestinn minn afhentan. Ég fór sumsé á Netið og pantaði fák af Dawes-gerð. Fékk ég síðan skondinn póst frá söluaðilanum, þar sem stóð að þeir myndu koma akandi með hjólið "in our vehicle", sem er svona álíka orðalag og ef einhver á Íslandi segðist myndu koma varningi til manns í farartæki sínu. Einnig fjárfesti ég í rammgerðum "D-lock" sem er örugglega álíka þungur og hjólið, en það er með álstelli og ætti því að vera fislétt.
   posted by Jón at 11/15/2004 11:50:00 AM

|


   4.11.04  
Oh, God

Ég splæsti í The Guardian (20p, næstum jafn ódýr og Fréttablaðið) í dag, fyrsta tölublaðið sem fer í prentun eftir kosningaúrslitin í US. Forsíðan á fylgiblaðinu G2 var öll kolsvört, nema hvað í miðjunni stóð með litlu letri "Oh, God." Gaman að fjölmiðlum sem þora að hafa skoðanir.
   posted by Jón at 11/04/2004 05:31:00 PM

|


   3.11.04  
Krappdagur

Þessi dagur byrjar svo sannarlega ekki vel. Í USA sannaðist að þegar heimskan og hræðslan leggjast á eitt má skynsemin sín lítils. Svo var hjólinu mínu stolið í nótt. Hjólmissirinn gerir mér nú eiginlega meira gramt í geði en sigur Bush, en skaði heimsbyggðarinnar er trúlega á hinn veginn. Oh, well, það er a.m.k. hægt að fá sódavatn hér fyrir 20p (25kall) og sæmilegt rauðvín fyrir 4 pund (500kall) svo fátt er nú með öllu illt.
   posted by Jón at 11/03/2004 04:53:00 PM

|


   1.11.04  
Sögur af sonum

Eins og önnur foreldri er ég útsettur með að plaga vini og velunnara með sögum af því hvað afkvæmi mín séu skemmtileg, greind og á allan hátt vellukkuð eintök. Minna fer fyrir frásögnum af slagsmálum þeirrra, óþekkt, matvendni og endalausu kvabbi, enda kannski ekki í frásögur færandi.

Í morgun sátu bræðurnir saman í stofusófanum og skoðuðu ensk myndablöð um Tomma Togvagn meðan þeir biðu eftir að mamma þeirra klæddi þá í skólabúningana. Upphófust þá eftirfarandi samræður:
Jói: Valli, lestu fyrir mig.
Valli (áhyggjufullur): En Jói, ég kann ekki að lesa ensku.
Jói (með heimspekilegri ró): Valli, lestu þá bara á íslensku.
Til skýringar skal á það bent að þeir félagar eru fjögurra ára og nýbyrjaðir að læra stafina.

Jói hefur mátulega miklar mætur á Hrekkjavökunni, sem haldið var upp á hér í Coventry um síðustu helgi. Þegar mamma hans hafði lokið við að útskýra fyrir honum að Halloween héti Hrekkjavaka á íslensku, sagði hann: “En mamma, ég vil ekki að Hrekkjavakan hrekki mig.”

Skólafélagi og jafnaldri Jóa og Valla heitir Rashid. Um daginn voru bræðurnir á ferli ásamt mömmu sinni og mættu téðum Rashid á förnum vegi:
Stína: Er þetta ekki skemmtilegur strákur?
Jói (með áherslu): Nei!
Stína: Af hverju ekki?
Jói: Hann potar alltaf í rassinn á sér.
Eins gott að heilsa ekki Rashid með handabandi, segi ég nú bara.
   posted by Jón at 11/01/2004 03:15:00 PM