Bumbublog

   14.12.04  
Byttur í Bretlandi

Ég held ég verði að éta ofaní mig aftur öll skattyrði um veðrið hér í Coventry. Hér er sem sagt búið að vera mikið ágætisveður svo til allan undanfarinn mánuð, og vetur eins og við þekkjum hann á Fróni hvergi sjáanlegur. Ósköp finnst mér nú notalegt að geta farið út úr húsi í desember án þess að vera stöðugt að þurrka sultardropa af nefinu eða strjúka stórhríðina frá gleraugunum. Hér eru menn komnir í nokkurt jólaskap, og reyndar eru Bretar mun fyrri til með jólaskreytingar í heimahúsum en gengur og gerist á Íslandi. Þrátt fyrir það virðist ekki ríkja sama fyrirjólaspennan og á Klakanum, a.m.k. verður maður ekki var við sömu geggjunina og maður á að venjast á aðventunni. Kannski ræður þar einhverju að í bílnum hlustum við aðallega á klassíska stöð og höfum því misst af/sloppið við "Jólahjól" og aðra snilld af líku tagi.

Eitt hefur komið mér verulega á óvart við breskt samfélag, og það er hvað Bretinn drekkur stíft. Maður hafði einhvern veginn bak við eyrað ímyndina af Bretlandi þar sem pöpullinn fengi sér einn öl á kránni eftir vinnu, en yfirstéttin sötraði portvín og viskí í góðum fíling við arininn. Þetta gera menn reyndar almennt, og margir fá sér bæði öl og viskí meira og minna daglega, en þar við bætist að yngra liðið fer á all svakaleg fyllerí um helgar og gefur þar íslenskum jafnöldrum sínum ekkert eftir. Nær daglega eru í fjölmiðlunum fréttir af sukki og svalli, og greinilegt að fólk hefur miklar áhyggjur af þessari geysilegu drykkju. Svo virðist sem þetta sé tiltölulega nýlegt fyrirbæri, og megi kenna hér um mikilli markaðsetningu drykkjarfyrirtækjanna á áfengu gosi, en meðan ecstasy var sem vinsælast á tíunda áratugnum lápu flest þeirra dauðann úr skel. Nú dafna þau hins vegar eins og púkinn á fjósbitanum, og sagt er að stjórn Blair hafi löngum daufheyrst við áhyggjuröddum vegna drykkjuaukningarinnar, enda drykkjarframleiðendurnir dyggir stuðningsmenn Verkamannaflokksins.
   posted by Jón at 12/14/2004 07:04:00 PM

|


   3.12.04  
Kalt smæl í Coventry

Nú er frost í Miðlöndunum ensku. Nánar tiltekið, þá er nú ekki frost ákkúrat núna en í morgun var ískalt og héla yfir öllu. Svolítið norðanáttarlegt veður bara, eins og maður kannast við heiman frá klaka; bjart, fallegt en kalt. Sakir rakans sem hér er í lofti kemur líka sérstaklega illvíg klakabrynja á bílgluggana þegar frýs, og hana varð ég að berja af í morgun til að koma drengjunum í skólann. Ég gerði annars óformlega úrtakskönnun meðal skólafélaga minna og sýnist að ég sé sá eini í mínum kúrsi (af um 65) sem finnst veðrið hér í Coventry vera framför frá heimalandinu.

Í fyrrakvöld var sýndur hér í sjónvarpinu þáttur um Brian Wilson og meistaraverkið Smile, sem karlinn fór með á tónleikaför í sumar eftir að hafa átt það ofan í skúffu í tæp 40 ár. Smile hljóðritaði Wilson á seinni hluta sjöunda áratugarins og átti stykkið að koma út sem næsta Beach Boys plata eftir hina áhrifamiklu Pet Sounds. Hinir Strandstrákarnir voru á tónleikaferð á meðan, en þar kom að Brian þurfti á þeim hað halda til að syngja inn á gripinn. Þessir félagar hans virðast algerlega sneyddir sans fyrir góðri tónlist, því þeim leist ekkert á prójektið og á endanum var öllu saman stungið undir stól, Brian Wilson snappaði og var spítalamatur næstu árin, og restin af bandinu fetaði þann sorglega veg sem sjá mátti dæmi af á Broadway um daginn, með hrappinn Mike Love í broddi fylkingar. Það var annars magnað að fylgjast með kallinum í mynd þessari, þegar farið var að æfa Smile upp á nýjan leik. Hann datt algerlega inn í sjálfan sig, enda væntanlega rifjast upp fyrir honum mörg skelfingarminningin frá Beach Boys tímanum, og endaði með því að þurfa að leggjast inn á sjúkrahús kraminn á sál. Wilson náði þó að hrista af sér slenið og koma öllu saman á koppinn. Ég sá á bloggi Dr. Gunna að hann hafði farið og séð þetta sjó, og dauðöfunda ég kauða af, því það litla sem sýnt var frá tónleikunum í sjónvarpinu benti til þess að um magnaða upplifun hefði verið að ræða.
   posted by Jón at 12/03/2004 04:59:00 PM