Bumbublog

   30.4.05  
Áfram Bretland, ekki bakka!

Hér í Bretlandi er kosningabaráttan komin á flugstig, enda kjördagur næsta fimmtudag. Geysilega gaman hefur verið að fylgjast með slagnum, enda margt með öðrum brag en á Íslandi. T.d. fá stjórnmálaleiðtogarnir hér ekki að vera pakkaðir inn í bómull og naggast í mesta lagi hver í öðrum, eins og lenska er heima, heldur þurfa þeir stöðugt að taka slaginn við grjótharða fréttamenn og jafnvel sótsvartan almúgann í návígi. Þannig var til að mynda þáttur í fyrradag á BBC1 þar sem Michael Howard, Tony Blair og Charles Kennedy þurftu (hver í sínu lagi) að setjast fyrir framan fullan sal af misfjandsamlegum kjósendum og standa fyrir máli sínu. Tony Blair var þarna m.a. kallaður lygari og heigull, og Michael Howard rasisti. Þetta kerfi þarf endilega að taka upp í aðdraganda kosninga á Íslandi, og leggja niður niðursoðin drottningarviðtöl þar sem hverju orði ráðamanna og annarra stjórnmálaleiðtoga er tekið sem fagnaðarerindinu af gagnrýnislausum fjölmiðlafígúrum.

Eitt er þó nauðalíkt hér og heima á klaka, og það eru slagorð stjórnmálaflokkanna í kosningabaráttunni. Þá sem fannst slagorð Sjálfstæðismanna í síðustu kosningabaráttu "Áfram Ísland" heldur banalt (með réttu, verð ég að segja) get ég t.d. frætt á því að Labour notar nú nánast sama slagorð, nema þeir hafa heldur bætt um betur. Slagorð Blair og kó er þannig "Britain forward, not back" svo ekki fari nú á milli mála hvaða stefnu er átt við. Ég held að við náum þessu hjá þér, Tony.

Ekki er betra uppi á teningnum hjá Tories, en þeirra slagorð er "Are you thinking what we are thinking?" Creepy or what, segi ég nú bara. Hvað ef maður er nú ekki að hugsa það sama og Michael Howard? Á maður þá ekki að kjósa Íhaldsflokkinn, eða eru hreinlega einhvers konar viðurlög við slíku óeðli? Það hefur reyndar verið gert slíkt stólpagrín að þessum frasa að Howard og félagar nota hann minna og minna eftir því sem á líður baráttuna.

Lib Dems koma eiginlega skárst út úr þessum samanburði, með frasann "the real opposition". Þeir geta a.m.k. bent á andstöðu sína við Íraksstríðið sem þeir voru á móti allir sem einn. Að öðru leyti ber nú ekki mikið í milli þessarra flokka hvað stefnu varðar, þeir eru allir að hnjóðast hver um annan þveran á miðjunni (ekki ósvipað og Ísland, eiginlega) og því verður fókusinn kannski meiri á menn og innantóm slagorð en málefni.
   posted by Jón at 4/30/2005 11:21:00 AM

|


   24.4.05  
Á ferli um Bretland

Í páskafríi strákanna (sem var n.b. allt eftir páskana) lét fjölskyldan í nr. 14 loksins verða af því að leggja land undir fót og skoða aðrar sveitir Stóra-Bretlands. Var ferðinni heitið til Wales, þar sem gist skyldi tvær nætur í kastala við ofanverðan Swansea-dal, og síðan niður til Somerset til að gista í bænum Cheddar aðrar tvær nætur.

Reyndar sannaðist í þessari för að fall er fararheill, því ca. hálftíma eftir að lagt var af stað stóð spýjan út úr Jóa syni mínum, en hann hafði orðið bílveikur vegna bókalestrar. Drengurinn náði ótrúlega mikilli þekju úr gusunni og lyktin hafði ekki góð áhrif á heilsuna hjá restinni af föruneytinu, svo nú voru góð ráð dýr: Ekki dugði annað en smúla Jóa og aftursætið eins og það lagði sig en hins vegar var ekki svo mikið sem eldhúsrúlla með í för. Því var steðjað á næstu vegasjoppu og fjárfest í hreinsigræjum fyrir tugi punda (ok. 14 pund) til að verka gubbið af Jóa, bílstólnum, aftursætinu og bílgólfinu. Eftir stífa hálftíma törn var bíllinn aftur orðinn íveruhæfur, þótt enn sæti eftir ísmeygilegur ælukeimur.

Haldið var af stað á nýjan leik og komst ég fljótlega að því að ferðaplan mitt, að nota svokallaða tveggja stafa A-vegi (í þessu tilfelli A-46 og A-40) var heldur loppið. Gallinn við þessa vegi er að þeir hafa umferðaþunga hraðbrauta en ekki þann forgang í kerfinu sem M-vegirnir (hinar eiginlegu hraðbrautir) hafa. Því er maður sífellt að keyra um hringtorg og hvert einasta þeirra býður upp á fjölbreytilega möguleika til þess að álpast af leið. Í versta tilfellinu þurftum við að keyra gegn um hina ömurlegu Cheltenham, sem ég ráðlegg lesendum eindregið að forðast á ferðum sínum um England. Maður hélt sig vera að keyra eftir þjóðvegi en fyrr en varði var maður að stautast í miðborgarumferð einhvers nápleiss og engin vegaskilti sjáanleg neins staðar.

Merkilegt nokk lagaðist vegakerfið mikið eftir að til Wales var komið, og er mér sagt að Wales-verjar hafi notið góðs af byggðarstefnu með svipuðum hætti og hinir jarðgangaríku aust- og norðlendingar á Íslandi. Við náðum loks til kastalans í muggu mikilli um kvöldmatarleytið, og dvöldum þar í góðu yfirlæti næstu tvo daga. Kastali þessi heitir Craig y Nos og mæli ég heils hugar með honum fyrir þá sem vilja kíkja vestur til Wales og hafa yfir bíl að ráða. Í næsta nágrenni við kastalann eru heilmiklir hellar, sem við skoðuðum, og lendur hans eru nú útivistarsvæði með stígum og tilheyrandi.

Minnugur fyrri mistaka ákvað ég, að höfðu samráði við frúna, að notast við hraðbrautirnar til þess að koma okkur niður til Somerset. Gekk það ferðalag snurðulaust og tók ótrúlega stuttan tíma, þótt við stoppuðum á leiðinni til þess að skoða annan kastala, Castell Koch. Í Cheddar áttum við pantað herbergi á gistiheimilinu Bay Rose House. Gistiheimili þetta er tær snilld fyrir barnafjölskyldur, því krakkarnir leika sér við börn húsráðenda og fá að gramsa í dótinu þeirra að vild. Á einum tímapúnkti var m.a.s. allt liðið komið inn í íbúð vertanna að horfa á Shrek 2. Einnig fékk stóri strákurinn nokkuð fyrir sinn snúð, því mér var boðið að taka snúning á Scalextric-braut Martins, eiganda Bay Rose, og náði ég geysigóðum árangri í akstrinum eins og sjá má hér. Reyndar þarf að smella á linkinn fyrir "full table" þar sem einhverjir grautfúlir Ástralar hafa bolað mér niður af topp tíu, en samt ekki slæmt fyrir mann sem hefur ekki tekið á því á bílabrautinni í 25 ár eða svo. Kannski maður kaupi svona Scalextric-braut þegar heim er komið (fyrir strákana auðvitað).
   posted by Jón at 4/24/2005 12:10:00 PM

|


   21.4.05  
Snemma beygist krókurinn upp

Valla syni mínum kippir heldur betur í kynið. Dæmi um það er mikill áhugi hans á Marie Claire-blaði sem Stína keypti um daginn. Í blaði þessu er nefnilega opna þar sem gefur að líta ein 10 fönguleg fljóð í fæðingar- gallanum sem snúa berum botninum í lesandann. Myndin fylgir grein þar sem téðar konur tala um kost og löst á afturenda sínum. Jói hefur ekki sýnt þessari mynd nokkurn minnsta áhuga, en öðru máli gegnir um Valla. Löngum stundum situr hann og veltir vöngum yfir myndinni góðu, og þegar ég fór inn í herbergi þeirra bræðra í gærkvöldi til að laga sveininn til fyrir nóttina lá hann steinsofandi ofan á sænginni með rassamyndina í fanginu. Við vitum eiginlega ekki alveg hvernig við eigum að bregðast við þessum mikla gumpáhuga drengsins. Ekki dugar að taka af honum blaðið og pukrast með það; það myndi bara auka áhugann um allan helming. Ég man að minnsta kosti eftir miklum áhuga mínum og bernskuvini mínum á Se og Hör blöðum sem til voru á heimili hans og skörtuðu beru kvenfólki, þótt við værum ekki nema ca. 6-7 ára þegar við vorum að frýnast í þau. Ætli sé ekki bara best úr því sem komið er að leyfa drengnum að skoða myndina góðu þar til hann fær nóg, eða hafa lesendur betri hugmynd?
   posted by Jón at 4/21/2005 11:10:00 AM

|


   18.4.05  
Radiohead rules, ok!

Í gær var þáttur á Channel 4 þar sem kynnt voru úrslit vals áhorfenda stöðvarinnar á bestu plötu/geisladiski allra tíma. Þar sem ég var önnum kafinn við upplestur á Bob the Builder fyrir unga hlustendur byrjaði ég fyrst að horfa á prógrammið þegar komið var að tíu efstu sætunum. Ég missti alla trú á smekk Bretans þegar ein ofmetnasta hljómsveit heims, Oasis, var sett skör ofar en snillingarnir í Beatles, en heldur lyftist brúnin á ný þegar fyrsta sætið var tilkynnt. Það voru sumsé engir aðrir en Oxfordshire-búarnir Radiohead sem hrepptu það hnoss með einu meistaraverka sinna; OK Computer. Nú er að sönnu erfitt að gera upp á milli snilldarinnar sem Thom og félagar hafa sent frá sér gegn um tíðina, en til þess að einfalda valið höfðu Channel4 menn pikkað út eina plötu með hverju bandi, nema hvað stórmenni eins og Bítlarnir fengu að leggja til þrjár plötur, og goddamn Oasis fengu reyndar að leggja til tvær. Listinn yfir tíu bestu plöturnar að mati Channel4 áhorfenda er annars svona:


1. RADIOHEAD - OK Computer
2. U2 - The Joshua Tree
3. NIRVANA - Nevermind
4. MICHAEL JACKSON - Thriller
5. PINK FLOYD - Dark Side of the Moon
6. OASIS - Definitely Maybe
7. THE BEATLES - Sgt Pepper's Lonely Hearts Club Band
8. MADONNA - Like a Prayer
9. GUNS N' ROSES - Appetite For Destruction
10.THE BEATLES - Revolver

Þess má geta að þriðja Bítlaplatan, White Album, var í 12. sæti. Ýmsir frægðarmenn voru svo fengnir til að gefa komment á plöturnar og kom Slash úr Guns'n'Roses skemmtilega á óvart með yfirlýstu dálæti sínu á Radiohead an hann sagðist vera algert "Radiohead-head" og glotti við tönn.

Hætt er við að Thom Yorke hafi misst af prógramminu, en hann var núna um helgina að mótmæla slæmum aðbúnaði verkafólks í þriðja heiminum eins og sá vinur litla mannsins sem hann er. Tóku mótmælin alla laugardagsnóttina og hér má sjá stórmennið mála kröfuspjald sem notað var við þetta tækifæri og mússisera á gítarinn sinn að hætti verkalýðssinnaðra músíkanta allra tíma.
   posted by Jón at 4/18/2005 04:40:00 PM

|


   16.4.05  
Úr vetrardvala

Nú er vor í lofti hér í Warwickshire og mál að vekja bloggið úr vetrarhíði sínu. Veturinn hefur verið nokkuð ljúfur þótt menn hafi skipst á að leggjast í bælið með hinar aðskiljanlegustu pestir eins og gengur. Ég fór annars í skreppiferð til Íslands í vikunni er leið og tók þá hringinn á vini og vandamenn. Allir virðast vera í nokkuð góðum gír, sumir hamast við að fjölga mannkyninu, aðrir fjárfesta í hinum sturlaða fasteignamarkaði og enn aðrir hafa lagt einn tug ára til viðbótar að baki meðan á dvöl okkar hér í Bretlandi hefur staðið. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég var ekki viss um að rata í höfuðstaðinn þar sem ég sat undir stýri Opel-bifreiðar pabba, því heilmiklar breytingar hafa orðið á Keflavíkurveginum og ökuleiðinni gegn um Hafnarfjörð síðan í haust, þökk sé Sturlu. Þó gekk rófan á endanum og var það að þakka geysimikilli reynslu minni af akstri í hringtorgum síðasta hálfa árið. Bretar halda mikið upp á þess konar mannvirki og getur hvarvetna að líta hringtorg af öllum stærðum og gerðum, allt frá litlum máluðum hringjum á gatnamótum upp í hálfgerða hringvegi sem töluverðan tíma tekur að ferðast um. Reyndar má kannski segja að hraðbrautin M25, the Orbital, sem hringar sig um London sé stærsta hringtorg í heimi, og London þá um leið stærsta umferðareyjan.

Það er annars skuggalegt hvað tíminn þýtur út í eterinn hér í Bretlandi; ég er svei mér þá ekki frá því að hann líði hraðar en á Íslandi. Hef ég þá kenningu að ástæðan sé að Coventry liggur "utar" á jarðarkringlunni en Reykjavík gagnvart snúningsmöndul hennar og því er maður náttúrlega á töluvert meiri ferð hér en heima á Klaka. Samkvæmt þessari teóríu er stórvarasamt að flytja til Equador, því þar yrði maður gamalmenni áður en maður vissi af.

Íslenskir pólitíkusar mættu taka Gordon Brown til fyrirmyndar. Þegar fjármálaráðherra Bretlands ferðast innanlands notast hann yfirleitt við lestarkerfið frekar en láta spreða í rándýra þyrlu eða límosínu. Reyndar ferðast Gordon á fyrsta farrými en þó fær hann prik fyrir að ganga á undan með góðu fordæmi hvað varðar notkun á almenningssamgöngum. Maður sæi alla vega ekki alveg fyrir sér að Davíð, Halldór og þeir hinir færu út á BSÍ og tækju Vestfjarðaleið næst þegar þeir eiga erindi á Ísafjörð. Það er reyndar gert töluvert grín að Brown fyrir sparsemi hér í Bretlandi, og til að mynda sýnir teiknimyndaspaugstofan 2DTV hann aldrei öðruvísi en sem fúllynda aurasál sem rukkar strákinn sinn fyrir hin ýmsu uppeldisverk. Brown er auðvitað Skoti en þó hef ég eftir áreiðanlegum heimildum að drengurinn hans sé ágætlega haldinn og fái að eiga aurana sína í friði. Reyndar er Gordon óþægilega líkur Halldóri Ásgrímssyni í útliti við fyrstu sýn, en ku þó leyna á sér við frekari viðkynningu. Þannig segir í einni þeirra fjölmörgu bóka sem ritaðar hafa verið um kappann: "...but privately, Gordon Brown is a humorous and romantic man". Því miður fyrir kvenkyns lesendur gekk Brown í það heilaga fyrir fáum árum eftir langan og farsælan feril sem piparsveinn og er hann því sýnd veiði en ekki gefin nú um stundir.
   posted by Jón at 4/16/2005 10:27:00 AM