Bumbublog

   18.5.05  
Sonic "youth"

Nú er gaman! Allar gömlu hetjurnar manns í rokkinu, sem kallinn var orðinn úrkula vonar um að sjá í eigin persónu, flykkjast nú á Klakann og spila á ólíklegustu stöðum. Í fyrra voru það Pixies í Kaplakrika, í ágúst verða svo meistarar gítarmisþyrminga og unaðslegra óhljóða, Sonic Youth (sem eru reyndar komin vel á fimmtugsaldur, þrátt fyrir nafnið), sem troða upp í Nasa, af öllum stöðum. Hvað er næst? Fokking Bítlarnir á Gauknum? Allt um það, fyrr skal ég örendur liggja en láta Sonic-tónleikana fram hjá mér fara. Það getur vel verið að maður eigi eftir að skrýðast jakkafötum það sem eftir er starfsævinnar, en ekki ætla ég að snúa baki við rokkinu fyrir það. Nú er bara spurningin: Þar sem ég geri ráð fyrir að mín ektafrú hafi frekar takmarkaðan áhuga á því að sitja undir feedbacki og skurki Thurston Moore og kó, hver er maður (eða kona) til að verða samskipa kallinum á Sonic?
   posted by Jón at 5/18/2005 01:11:00 PM

|


   14.5.05  
School's out for summer.

Nú er kátt í höllinni! Ástæðan: Ég er (vonandi) búinn að fara í mitt síðasta próf um alla framtíð. Þessum tímamótum náði ég á þriðjudaginn var, eftir stutta en snarpa törn þar sem þrjú próf voru lögð að velli á tveimur dögum. Eins og við var að búast lasnaðist ég í því að ég kláraði síðasta prófið, en það er nú bara standard procedure og ekkert sem ætti að koma mér á óvart. Það er eins og maður setji alla sýklana og draslið á hold og svo komi þetta lið tvíelft um leið og líkaminn gefur grænt á að álagið sé aðeins farið að minnka.

Pabbi er að koma með vinkonu sinni í heimsókn eftir hálfan mánuð eða svo, og í tilefni af því bókaði ég gistiheimili fyrir allt liðið við Lake Windermere, svo fólkið sjái nú eitthvað annað af Stóra-Bretlandi en flatneskjuna í Coventry og nágrenni. Þarna upp frá ku vera ansi fallegt, og hægt að þramma fram og aftur um nágrennið sér til heilsubótar. Sú þriggja daga ferð verður sirkabát allt sumarfríið sem ég fæ þetta árið, því eins og ýmsir vita flytjum við heim til Íslands í júlílok og kallinn heldur þá þegar á vit nýs starfs. Húrra fyrir því.
   posted by Jón at 5/14/2005 11:04:00 AM