Bumbublog

   13.2.06  
Hvað er með Egil?

Hvað er eiginlega að gerast með Egil Helgason, hinn ágæta sjónvarpsmann? Sú var tíðin að manni þótti hann vera einn skeleggasti stjórnmálarýnandi/þáttastjórnandi í íslenskum fjölmiðlum, víðsýnn, gagnrýninn en þó opinn fyrir skoðunum viðmælenda sinna. Í seinni tíð hefur þó heldur hallað undan fæti fyrir kauða, og steininn hefur tekið úr frá því myndbirtingar Jyllandsposten á myndum af Múhameð spámanni komust í hámæli. Egill virðist hafa bitið í sig að það sé tjáningarfrelsinu hið mesta þarfaþing að þröngsýn málpípa afturhaldssinna í Danmörku fái að hrauna yfir þá helgu reglu múslima að birta ekki myndir af spámanni sínum, hvað þá með skopmyndum sem endurspegla um leið fordóma myndhöfundanna og væntanlega ritstjórnar blaðsins gagnvart múslimum. Þótt viðbrögð margra heittrúarmanna í múslimaríkjum séu vitaskuld út í hött breytir það engu um það að þessar myndir eru særandi fyrir þau hundruð milljóna (0,9 - 1,4 milljarðar manna skv. Wikipedia) sem játa islamstrú. Við áttum ágæta vini þessarar trúar þegar við bjuggum í Coventry og nóg átti það fólk undir högg að sækja vegna fordóma í kjölfar 11. september þótt ekki bætist við fyrirlitning miðaldra blaðamanna á Íslandi og annarra sjónumhryggra riddara málfrelsis á því sem þeim er heilagt.
   posted by Jón at 2/13/2006 09:55:00 PM

|


   5.2.06  
Til hamingju 2006!

Jei! Eitt blogg á ári veldur skapinu fári, svo nú er kominn tími á upprisu bumbubloggs, þótt bumban sjálf láti reyndar hægt og sígandi á sjá sakir skíðavélarbrúks í dómkirkju líkamsdýrkunar á Íslandi, Laugum. Sá reyndar dr.Gunna þar í sturtunni um daginn og drengurinn er bara alveg að hverfa! Alls kyns stórmenni er auðvitað þarna á vappi, Kári Stefáns sprangar um bísperrtur eins og jólasveinn á sterum og Mikki Torfa lyftir stíft í hádeginu, enda myndi maður sennilega gera svipað ef gervöll þjóðin vildi helst taka í lurginn á manni.

Það er allt að gerast í músíkinni. Laibach mætir á Nasa með sitt fasiska drungadiskó í mars og sama gerir undirritaður og frú hans. Svo er spurningin hvort maður á frekar að skella sér á Ray Davies eða Iggy and the Stooges í vor, hvílíkt lúxuspróblem! Liðin er sú tíð þegar einu erlendu númerin sem létu svo lítið að heiðra landsmenn með hljóðfæraslætti og söng voru Stars on 45 og Bonnie Tyler. Sonic Youth voru btw algerlega brilljant og mín helsta eftirsjá er að hafa ekki drattast á seinna giggið líka.

Svo verða allir að leggja árar í bát, eins og útvarpsmaðurinn sagði, og koma Sylvíu Nótt til Aþenu. Lagið ber af hinu hörmungarjóðlinu í þessari keppni og með því að senda Sylvíu og káta (gay) kappa hennar til að gera góðan skandal í aðalkeppninni gætum við loksins komið landinu á kortið sem flippurum í góðum gír.

Að lokum, hér er fínn vettvangur ef maður skyldi vilja breyta um starfsvettvang en halda áfram í greiningarbransanum. Fagið er greinilega (hoho) vaxandi og teygir anga sína æ víðar.
   posted by Jón at 2/05/2006 11:27:00 AM